Huggulegt heima!

Huggulegt heima!

Haustið er mætt og farið að dimma. Þá hugum við að því að skapa notalegt andrúmsloft heima. Hvað er betra en eftir langan vinnudag að koma heim og skella sér í kósý gallann eða náttfötin og njóta!


Það er hægt að njóta á marga vegu, hvort sem það er með sjálfum sér, vinum eða fjölskyldu. Á þessum hröðu tímum er mikilvægt að staldra við og lifa í núinu. Þegar kemur að því að hafa það huggulegt heima og njóta þá höfum við mörg ólíkar skoðanir á hvað felst í huggulegheitum. Sumir velja kósý föt og aðrir velja kannski að klæða sig upp. Mörgum finnst notalegt að fara í heitt bað eða heitan pott, jafnvel með kertaljós og góða tónlist á meðan aðrir velja sófann, góða bíómynd, volga eðlu eða gotterí. Aðalatriðið er að við finnum hvað lætur okkur líða vel og að við leyfum okkur að njóta þeirra stunda. 


 Við ætlum að koma með nokkrar hugmyndir að huggulegum og notalegum stundum. Listinn er ekki tæmandi og mögulega gleymum við einhverju, hver veit nema það komi fleiri hugmyndir seinna.


Við mælum með að byrja á að finna fatnað sem þér líður vel í, eða mjúkan slopp/handklæði og teppi eða sæng. 

Svo er að búa til stemninguna, dimma ljósin, kveikja á kertum, finna góða tónlist nú eða mynd. 


Hér fyrir neðan er svo hugmyndabankinn:


Kósýkvöld með sjálfum okkur:


Heitt bað með froðu eða ilmsöltum. Dimma ljósin eða kveikja á kertaljósum. Róleg tónlist og þykkt og gott handklæði á kantinum. Auðvitað er einnig hægt að fara í góða sturtu og nota skrúbba eða maska og að sjálfsögðu eitthvað gott krem eða olíur á eftir.


Kveikja á kertum, dimma ljósin til dæmis inni í stofu, horfa á góða mynd, hlusta á góða tónlist. Einnig getur verið ljúft að hlusta á hljóðbók eða bara þögnina. Það getur verið mjög notalegt að lesa bók, púsla eða jafnvel prjóna eða sauma út. En þá er betra að hafa góðan lampa við höndina. Sumum finnst þægilegt að hafa teppi og jafnvel eitthvað snarl nálægt.


Kósýkvöld með fjölskyldunni:


Það er svo margt hægt að gera notalegt með fjölskyldunni. Spilakvöld geta verið mjög skemmtileg eða fjölskyldu púsl. 

Að föndra saman eða lita. Oft er hægt að tengja þær stundir við hrekkjavöku, jólin eða páskana. Það eru líka til margar myndir og mandölur sem getur verið skemmtilegt að lita saman.


Þá er líka mjög huggulegt að kveikja á góðri mynd eða taka maraþon. Það getur verið mjög skemmtilegt að finna gamla klassík og kynna hana fyrir yngri kynslóðinni. Auðvitað mælum við með að dimma ljósin eða kveikja á kertum og ekki skemmir að bjóða upp á snarl með, hvort sem það er grænmeti, ávextir, hnetur, sætindi eða annað sem ykkur dettur í hug.


Að elda saman getur skapað notalega stund. Þegar það er kalt úti þá er tilvalið að gera heimatilbúna pizzu með fjölskyldunni, leggja saman á borð og njóta gæðastundar. Einnig er hægt að baka góðgæti saman og hita kakó.


Ef fjölskyldan á heitan pott er hægt að hafa það mjög notalegt saman í pottinum og gefur það gott tækifæri til að spjalla saman.


Kósýkvöld með makanum:


Kertaljós, rauðvín og ostar.


Koma makanum á óvart með til dæmis súkkulaðihjúpuðum jarðaberjum, gómsætum kvöldverði og desert. 


Horfa á góða mynd, hlusta á tónlist, spila, púsla eða sitja og spjalla. Muna bara að skapa stemningu hvort sem það er með kertaljósum eða einhverju öðru. 



Kósýkvöld með vinum:


Það getur verið mjög notalegt að bjóða vinum í heimsókn. Þá er tilvalið að spjalla eða spila. Það getur líka verið gaman að taka mynda maraþon. Eða bjóða vinum í afslappað matarboð þar sem allir taka þátt í eldamennskunni og mæta í kósý gallanum. Með vinum getur verið gaman að gera pizzu saman, sushi, vera með fondue eða raclette, tapas eða ostabakka eða bara það sem ykkur dettur í hug. Svo er hægt að blanda þessu öllu saman borða, spila, horfa og spjalla.


 Við getum skapað huggulega stemningu heima með tónlist, lýsingu, góðgæti og góða skapinu